Umsagnir um Garðar Harðar

 

Djasshátíð Egilsstða 1997

 

Djasshátíð Egilsstða lauk með djammsessjón  þar sem Garðar Harðar blúsari frá Stöðvarfirði söng Stormy Monday af LIST og blés í munnhörpu við undirleik Guðmundar “Papa Jazz”Steigrímssonar á trommur, Ingva Þórs Kormákssonar á píanó, Önnu Lilju Karlsdóttur á trompet og Einars Sævarssonar á bassa

 

Morgunblaðið IÞK

 

Tónleikar á Hótel Sögu 1997

Til heiðurs Árna Ísleifs sjötugum

 

.........Garðar Harðar flutti afmælisbarninu svohljóðandi vísu:

 

Eftir mikið djamm og djús

Dreng fanst gaman kárna

Helgar sig nú hægum blús

Með hetju sinni Árna

 

Garðar söng einnig nokkra blúsa, en hann er í fremstu röð blússöngvara hér á landi

 

Morgunblaðið Vernharður Linnet.

 

02.06.2007 - Ekki versnar það .......

 

Jæja, þá hélt Hammond hátíðin á Djúpavogi áfram föstudagskvöldið 1. júní.

 
Garðar Harðar var mættur á svæðið með Blúsbrot sitt, skipað hljóðfæraleikurum úr Fjarðabyggð. Slagverksleikarinn Otto Meier, sem segir frá í umfjöllun um 1. kvöldið borðaði ekkert fyrir tónleikana, þar sem hann skildi málið þannig að Garðar ætlaði að útdeila Blúsbrauði líkt og frelsarinn forðum (orðið “brot” á þýzku þýðir “bauð”). Þetta leiðréttist þó fljótt og Garðar og félagar útdeildu þess í stað firna góðri tónlist og náðu hörku tökum á salnum.

Með Garðari í för voru Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Jóhannes M. Pétursson (Jói á Gili) á bassa, Pétur Hallgrímsson á trommur, Jón Hilmar Kárason á gítar og Guðjón Steinþórsson, einnig á gítar. Auk þess að syngja, þandi Garðar sjálfur svo þriðja gítarinn.

Skemmst er frá því að segja að Blúsbrotið á fullt erindi á hvaða hátíð sem er af þessu tagi. Jón Hilmar er jú bezti gítarleikari á Austurlandi og Garðar, sem gefur honum lítið eftir í snilld á hljóðfærið, er óumdeilanlega snjallasti blússöngvari í fjórðungnum og réttnefndur BLÚSKÓNGUR. Pétur er viðurkenndur trommari og stendur ætíð vel fyrir sínu og Jói, sem líklega hefur spilað minnst þeirra í seinni tíð gerði það sem góður bassaleikari á að gera, fylla upp í bítið en halda sér passlega til hlés. Það þarf ekki að fara orðum um færni Ágústar Ármanns, þegar hljómlist er annars vegar og þótt hann væri að spila á Hammond í fyrsta sinn í 31 ár, virtist það ekki há honum. Guðjón er líka fanta góður á gítarinn en hafði sig of lítið í frammi.

 

Myndir og texti: BHG

 

Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi 2007

 

Blúsbrot Garðars Harðar

 Garðar Harðar hefur oftast komið að Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi á einhvern hátt og ekki margir sem hafa spilað jafn oft á hátíðinni nema þá kanski Árni sjálfur.  Nú sem oft áður kemur Blúsbrotið hans Garðars fram og leikur blús eins og Garðari einum er lagið.  Blúsbrotið hefur spilað víða undanfarið og er í fínu formi.  Þeir félagar munu segja ykkur frá raunum sínum og mæðast á Afmælistónleikum JEA 2007 í tjaldinu laugardaginn 30. júní.

Blúsbrotið er skipað valinkunnum tónlistarmönnum sem búsettir eru á Austurlandi:

Garðar Harðar
gítar og tregafull söngrödd
Þorleifur Guðjónsson
bassi
Pjétur Sævar Hallgrímsson
trommur
Jón Hilmar Kárason
gítar
Einar Bragi Bragason
Saxófón



 

 

 

 

Norðurljósablús Höfn Hornafirði 2008

Blúsbrot Garðars Harðar
 

Á Víkinni var drulluþétt Blúsbrot Garðars.  Garðar Harðar hefur komið á allar blúshátíðirnar okkar og stjórnað blúsdjamminu en núna mætti kallinn með stórskotalið af austfjörðum.  Pétur í Tónspil á trommur, ég hef aldrei séð hann spila fyrr og helvíti er hann flottur kallinn.  Á bassa var Þorleifur Guðjónsson, ekki orð um það meir, hann er auðvitað snillingur.  Ágúst Ármann, organisti Norðfjarðarkirkju lék á hljómborð og Jón Hilmar Kárason á gítar.  Flottir kallar og þeir komu mér skemmtilega á óvart.

 

02.05.2008 - Hammondhátíðin 2008 fer vel af stað

 

Aðalnúmer kvöldsins átti að vera Blúsbrot Garðars Harðar og það gekk svo sannarlega eftir. Með Garðari í för í þetta sinn voru „prófessor“ Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Þorleifur (sjálfur) Guðjónsson á bassa, Pétur (sankti) Hallgrímsson á trommur og (heilagur) Jón Hilmar Kárason á gítar. Auk þess að þenja raddböndin sló (meistari) Garðar fagmannlega strengi á gítar sínum. Þeir piltar koma allir úr Fjarðabyggð. Óþarfi er að orðlengja það að þeir félagar eru allir afburða hljóðfæraleikarar.

Ágúst Ármann er mjög yfirvegaður á orgelið en fylgir þeim félögum vel eftir og tekur sólóin sín af kostgæfni, þegar honum er uppálagt, áreynslulaust en samt með „fílingi“.

Pétur er mjög þéttur trommuleikari og enginn aukvisi þar á ferð, enda hefur maðurinn haldið takti hjá ýmsum þekktustu hljómsveitum sem hafa vaxið upp úr norðfirzku tónlistarlífi og gert það gott.

Um hæfni Þorleifs á bassann efast enginn, enda eftirsóttur á landsvísu og auk þess er hann mjög lifandi á sviði. Þess utan blandar hann sér í sönginn og raddar áheyrilega í völdum köflum.

Jón Hilmar hefur verið eitt bezt varðveitta leyndarmálið í hljómlistinni fram til þessa, en ljóst að hann er kominn á landsmælikvarða í gítarleik og er því frambærilegur á hvaða sviði sem er.

Garðar er lítill eftirbátur hans á gítarinn og blús söngvari er hann af guðs náð og að mati annálsritara á hann þar heima í landsliðshópi.

Eftir hlé mættu þeir tvíefldir til leiks og fóru þá hreinlega á kostum. Ljóst er að Halldór Bragason og félagar þurfa að hafa sig alla við í kvöld svo þeir verði ekki á endanum upphitunarsveit fyrir þá Blúsbrotsfélaga, en líklega eru nú nokkur ár í það.

Myndir frá kvöldinu má skoða með því að smella hér
ÓB.

 

Hammondhátíðin 2010

- Fyrsti í Hammond -

Þá er nú Hammondið komið á sinn stað og fimmta hátíðin gengin í garð.

Í upphafi var (fram)orðið, en það átti eftir að verða en meira en orðið var, því tónleikarnir drógust heldur á langinn.

56 riff's hófu leik sinn og þá varð ekki aftur snúið.

Hljómsveitina skipa þeir Þorleifur Guðjónsson, Garðar Harðarson, Björgvin Gíslason og Ásgeir Óskarsson.

Um snilli þessara "öldunga" þarf ekki að fara mörgum orðum, enda hafa þeir áratuga reynslu að baki og hafa auk þess allir komið áður á Hammondhátíð og flestir oftar en einu sinni. Það er allavega ljóst að þeim hefur ekkert farið aftur síðan síðast.

Með í för var Margrét Guðrúnardóttir (Ásgeirsdóttir Óskarssonar) og kom hún mörgum á óvart, enda ekki þekkt nafn í tónlistarbransanum. Óhætt er að segja að þar fari ein af efnilegri blússöngkonum landsins, auk þess sem hún var ófeimin við Hammondið. Flutti hún lög úr eigin ranni, allt frá fönkskotnum blúslögum til hugljúfustu ballaða, sem sýna að hún er mjög efnilegur lagahöfundur.

Prógrammið í heild var fjölbreytt; blús, rokk og djass og tók Björgvin hvert heimsklassa gítarsólóið á fætur öðru, svo hrikti í stoðum hótelsins. Sólóin hjá Garðari voru öllu lágstemmdari, enda kemst gítarmagnarinn hans ekki í 11 eins og hjá Björgvini, en Garðar hefur svo sannarlega sýnt gestum Hammondhátíðar í gegnum tíðina að hann er einn albesti blúsari landsins. Eitt af því sem gerði efnisval þeirra félaga áhugavert voru instrumental lög. Túlkun Bjögga á Albatross gáfu ekki eftir tilþrifum Peter Green á sínum tíma. Lagið Europa úr smiðju Santana varð einnig stór rós í hnappagat sólóleikarans og þeirra allra.

Þorleifur heldur ennþá haus þrátt fyrir allan hristinginn og fílar sig greinilega alltaf í botn þegar hann kemst í það að vera hluti af góðri hrynsveit. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir að koma saman þessu bandi og er ætíð aufúsugestur hér en þó samt ekki gestur hér um slóðir, þar sem hér á hann slotið Hamraborg, sem bæði er há og fögur.

Geiri er sko enginn Goldfinger, eins og nafni hans en læsir engu að síður fingrum sínum utan um kjuðana og breikar af beztu list, ásamt því að vera taktfastur með afbrigðum. Sönghæfileikar hans koma sífellt meira og meira í ljós á Hammondhátíðum og ekki brást hann aðdáendum sínum í þetta sinn.



- Annar í Hammond -


Það var skipt um landsliðsþjálfara á föstudagskvöldið. Landsliðþjálfari síðustu ára, Halldór Bragason, forfallaðist á síðustu stundu vegna geðvonskunnar í Eyjafjallajökli. Dóri ætlaði að leggja land undir fót (vængi undir sitjanda) frá Austin í Texas til Glasgow, þaðan til Akureyrar - frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Egilsstaða. Þaðan átti að redda honum yfir nýopnaða Öxi, þannig að hann kæmist með hatt sinn og staf á hátíðina eins og auglýst hafði verið.

Þetta ferðaplan gekk einfaldlega ekki upp á endanum og því varð Dóri að sætta sig við að komast ekki á 5 ára festivalið á Djúpavogi, Hammondhátíðina, sem hann á svo mikinn þátt í að hafa komið af stað.

Vegna óvissu um flugsamgöngur hafði verið sett ferðabann á fólkið í 56 riff´s (sjá umfjöllun um fyrsta kvöldið) og voru þau öll reiðubúin að standa vaktina, enda hafði þá þegar komið fram hjá Margréti Guðrúnardóttur að hún gæti alveg hugsað sér að dvelja áfram á Djúpavogi.

 

Víkjum nú aftur að landsliðinu. Hinn nýi (allavega tímabundni) landsliðsþjálfari, Björgvin Gíslason, tefldi fram liðinu frá því á fyrsta kvöldi, sbr. formálann hér á undan. Í hópinn höfðu bæst efnilegasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, Þorleifur Gaukur Davíðsson og hinn geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson, sem reyndar gerði garðinn frægan á Hammondhátíð 2009. Þorleifur reyndist svo sannarlega Gaukur í horni og er ljóst að þessi lítilláti og hæfileikaríki piltur á að geta náð mjög langt, miðað við þá fjölhæfni sem hann greinilega býr yfir og sýndi svo eftirminnilega í gær, ekki síst á munnhörpuna. Ekki er hægt að bæta miklu við umfjöllun frá fyrsta kvöldi, en þó er ástæða til að leggja áherslu á hve glæsilega hópurinn gerði margt af fingrum fram og án þess að allir hefðu æft saman sem heild. Þar var eigi hlutur Svavars Sigurðssonar sístur og greinilegt að hinir félagarnir kunnu vel að meta framlag hans.

Sérstaka athygli vakti tvíbössunarsamningurinn, sem Þorleifur Guðjónsson og fyrrnefndur Róbert gerðu með sér og kynntu helstu ákvæði hans í nokkrum lögum. Við verðum auk þess að nefna glæsilega framgöngu Margrétar söngkonu og hljómborðsleikara, sem undirstrikaði frábæra frammistöðu fyrsta kvöldsins og virkaði mun öruggari og meira töff og lék og spilaði eins og hún væri á heimavelli, enda hefur hún tekið ástfóstri við staðinn.

Of langt mál væri að telja upp marga hápunkta kvöldsins og því viljum við einfaldlega í orðleysi okkar segja: Þetta var örugglega skemmtilegasta kvöld hammondhátíðar frá upphafi og í hópi þeirra kvölda sem hæst standa í tónlistarlegu tilliti.




 

 

Heimasíða Garðars Harðar